Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 239 . mál.


358. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr


    Í stað 1.–3. málsl. 2. mgr. 86. gr. laganna kemur: Ríkið rekur rannsókna- og ráðgjafarstofnun í veiðimálum er nefnist Veiðimálastofnun. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar Veiðimálastofnunar. Framkvæmdastjóri skal hafa viðhlítandi háskólamenntun og þekkingu á starfseminni. Hann hefur á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á framkvæmd mótaðrar stefnu og fjárhagsafkomu. Hann ræður annað starfsfólk.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til að skilja stjórnsýslu samkvæmt lax- og silungsveiðilögum frá framkvæmda- og rannsóknaverkefnum sem Veiðimálastofnun hefur á hendi. Nauðsyn þess má rekja til þess hve vítt starfssvið veiðimálastjóra er skilgreint í lögunum.
    Með breytingum sem gerðar voru á lögunum árið 1994 var Veiðimálastofnun í fyrsta sinn skilgreind sem sérstök rannsókna- og þjónustustofnun í veiðimálum. Þá var jafnframt kveðið á um skipan stjórnar fyrir stofnunina.
    Í seinni tíð hafa komið upp atvik þar sem bornar eru brigður á hæfi veiðimálastjóra til meðferðar máls vegna afskipta hans sem stjórnvalds á fyrri stigum þess. Slík mál kunna að rísa þegar um andstæða hagsmuni er að ræða. Veiðimálastjóri getur, miðað við núverandi starfssvið, átt ýmiss konar aðild að máli. Hann fer með beint framkvæmdarvald sem forstjóri Veiðimálastofnunar en situr einnig í stjórnum og starfsnefndum. Þar getur aðild veiðimálastjóra að máli fólgist í því að:
—    hafa á hendi daglega stjórn Veiðimálastofnunar sem m.a. sinnir rannsóknum, annast þróunarstarf og gefur leiðbeiningar;
—    eiga sæti í stjórn Fiskræktarsjóðs sem ákvarðar um styrki og lán úr sjóðnum, m.a. til Veiðimálastofnunar;
—    veita samþykki fyrir tilhögun framkvæmda sem Fiskræktarsjóður styrkir eða lánar til;
—    eiga sæti í fisksjúkdómanefnd (einn af þremur) og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar útbreiðslu fisksjúkdóma.
    Veiðimálastjóri hefur í vissum tilvikum sjálfstætt vald til að veita samþykki, setja skilyrði eða ákveða og getur þannig:
—    sett reglur, ákveðið eða mælt fyrir um eitthvað;
—    gert úttekt á mannvirkjum;
—    látið fara fram líffræðilegar úttektir;
—    sett veiðieftirlitsmönnum erindisbréf og gefið út skírteini handa þeim.
    Að lokum má nefna ráðgjafarhlutverk veiðimálastjóra sem er bundið í lögunum en veiðimálastjóri skal gefa ráðherra álit eða veita umsögn í margvíslegum málum. Dæmi um það eru:
—    umsagnir og álit í úrskurðarmálum;
—    meðmæli eða tillögur um leyfi, takmörkun, bann, friðun eða undanþágur;
—    tillögur um setningu reglugerða;
—    ráðgjöf eða samráð um framkvæmdir;
—    meðmæli með leyfisveitingu eða útgáfu skírteina;
—    tillögur um skipun veiðieftirlitsmanna.
    Af upptalningunni sést að veiðimálastjóra er ætlað að hafa afskipti á öllum stigum máls. Þannig getur hann komið að rannsókn og ráðgjöf fyrir hagsmunaaðila sem sérfræðingur og forstjóri Veiðimálastofnunar. Hann getur mælt með eða gert tillögu til ráðherra, e.t.v. á grundvelli rannsókna, um að banna, leyfa eða veita undanþágu frá reglum, allt eftir málsatvikum hverju sinni. Það getur síðan komið í hlut veiðimálastjóra að setja nánari reglur, mæla fyrir um framkvæmd og gera úttekt á mannvirkjum. Sem fulltrúi í stjórn Fiskræktarsjóðs getur hann þurft að taka afstöðu til umsókna eða hlutast til um styrki til framkvæmda sem áður hafa komið til umsagnar hjá embættinu. Þá getur Veiðimálastofnun verið meðal umsækjenda.
    Oftast reynir ekki á ástæður vanhæfis nema aðilar telji sig hafa orðið fyrir tjóni eða verið misrétti beittir vegna ákvarðana stjórnvalda. Þá getur svo farið að veiðimálastjóri þurfi að fjalla um og jafnvel rannsaka eða úrskurða um mál sem hann hefur mælt með, samþykkt eða ákveðið á fyrri stigum. Augljós er þá hætta á hagsmunaárekstri þar sem gerðir stjórnvalds samrýmast ekki stjórnsýslulögum.
    Í 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í 3. gr. laganna er fjallað um vanhæfisástæður. Þannig er starfsmaður eða nefndarmaður vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- og eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að. Einnig er kveðið á um vanhæfisástæður ef að öðru leyti eru fyrir hendi aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í 4. gr. segir um áhrif vanhæfis að sá sem er vanhæfur til meðferðar máls megi ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.
    Veiðimálastofnun, eins og öðrum rannsóknastofnunum, er nauðsynlegt að geta sýnt fram á að hún stundi óvilhallar og hlutlausar rannsóknir. Að rannsóknastofnun taki þátt í að rannsaka hugsanlegar afleiðingar leyfisveitinga sem forstöðumaður hefur átt aðild að getur ekki samrýmst kröfunni um hlutleysi í vinnubrögðum og er frekar til þess fallið að draga úr trúverðugleika stofnunarinnar. Þá getur það ekki talist eðlilegt að forstöðumaður opinberrar stofnunar geti hlutast til um styrkveitingar til stofnunarinnar með beinum hætti með setu sinni í stjórn opinbers sjóðs.
    Niðurstaðan er að nauðsynlegt sé að greina á milli aðildar veiðimálastjóra að stjórnsýslu samkvæmt núgildandi lax- og silungsveiðilögum annars vegar og rannsókna, ráðgjafar- og þjónustustarfsemi á vegum Veiðimálastofnunar hins vegar.
    Sú breyting sem hér er lögð til er einföld og veldur ekki röskun á starfsemi Veiðimálastofnunar. Stofnkostnaður við sjálfa breytinguna er enginn og ekki er gert ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði. Lögfesting frumvarpsins á ekki að hafa í för með sér breytingu á starfsmannafjölda í stofnuninni. Ef ráðinn verður framkvæmdastjóri sem ekki hefur stöðu við stofnunina í dag verður stofnunin að hagræða í rekstri sem því nemur.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum, um


lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er kveðið á um aðskilnað stjórnsýslu frá framkvæmda- og rannsóknaverkefnum þeim sem Veiðimálastofnun hefur á hendi.
    Frumvarpinu fylgir ekki aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð.